Um Sólríki
Hugmyndin að Sólríki kviknaði þegar ég leitaði að fallegum, skemmtilegum og kannski smá óhefðbundnum myndum til að skreyta barnaherbergið hjá syni mínum. Eftir langa leit án árangurs ákvað ég að nýta þá reynslu sem ég hef í hönnun og fann hvernig sköpunargleðin nærði sálina. Úr því urðu til allskonar veggmyndir með skemmtilegum, persónulegum og fallegum skilaboðum fyrir okkar besta fólk og okkur sjálf.
Strax og ég byrjaði á fyrstu myndinni kom setning frá mömmu minni til mín sem hún hefur ósjaldan skrifað í afmælis-, jólakort og í skilaboðum til fólks og hef ég sjálf reynt að koma þessari línu í hin ýmsu tækifærikort til vina og fjölskyldu þar sem mér finnst skilaboðin falleg og gleðja mig og mína. Með innblæstri frá henni ákvað ég að enduróma þessi kærleiksríku og jákvæðu skilaboð sem geta birt upp daginn á mínu heimili og vonandi heimilum fleiri landsmanna, „Sól sól skín á þig í dag & alla daga“. Mamma mín á einnig heiðurinn að annarri mynd en hún nýtir hvert tækifæri í að minna fólk á að “njóta & fljóta” sem ég finn mig sjálfa vera farna að gera reglulega við fólk í kringum mig svo að mér fannst tilvalið að fá þessa áminningu upp á vegg heima þar sem þetta á vel við dagsdaglega.
Ég vona að myndirnar mínar veiti fólki gleði og innblástur í daglegu lífi, bæði fyrir börn og fullorðna. Ég trúi því að falleg, hjartnæm og gleðjandi skilaboð geti haft góð áhrif og skapað hlýlegt andrúmsloft á hverju heimili.